6) TÓNLISTARHNEYKSLIÐ RÚV - RÁS 1 - "MENNINGARMORÐ" Í HÁSKÓLABÍÓI 2013 - SJÁ UPPTÖKU FRÁ FUNDINUM

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

26. febrúar 2022

Karólína Eiríksdóttir tónskáld

 

Karólína Eiríksdóttir tónskáld var að senda mér tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. // Bestu þakkir kæra samverkakona frá 1980. En Karólína skrifar:
Sæll Guðmundur.
Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram á heimasíðunni þinni, að dagskrárgerð á sviði klassískrar og samtímatónlistar á rás 1 hefur hnignað mjög. Á árum áður voru margir þættir á viku gerðir af kunnáttufólki, ýmist starfsfólki tónlistardeildar RÚV, eða utanaðkomandi sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum tónlistar. Þessi dagskrárgerð var gífurlega mikilvæg og gerði tónlistarfólki og áhugafólki um klassíska og samtímatónlist mögulegt að fylgjast með því nýjasta sem var að gerast í heiminum. Menningargildi íslensku þáttanna er ómetanlegt fyrir íslensku þjóðina, þar eru varðveittar upptökur af tónlistarflutningi helstu hljóðfæraleikara liðins tíma, upptökur af íslenskum tónverkum og raddir og viðhorf gengins tónlistarfólks, tónskálda og flytjenda.
Eins og kemur fram í máli eins viðmælanda þíns, þá er fjöldi fólks sem þakkar Ríkisútvarpinu fyrir að hafa leitt sig inn í heim klassískrar tónlistar, menntunargildið er því óumdeilanlegt. Sjálf man ég að hafa setið við útvarpstækið sem barn og orðið uppnumin þegar ég heyrði klassískt verk og rann upp fyrir mér ljós hvað þetta var fallegt. Nú eru að alast upp kynslóðir sem heyra aldrei “óvart” klassíkst tónverk, og ég meina aldrei. Ég er ekki viss um að þetta fólk verði tíðir gestir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða óperusýningum í framtíðinni.
Það er ljóst að hlutverk RÚV er mikilvægt og því ber að framfylgja skyldu sinni á þessu sviði eins og á öðrum, en mörgu er vel sinnt á þeirri stofnun, en því miður á það ekki við um það svið sem hér er til umræðu.
Með kveðju,
Karólína Eiríksdóttir