6) TÓNLISTARHNEYKSLIÐ RÚV - RÁS 1 - "MENNINGARMORÐ" Í HÁSKÓLABÍÓI 2013 - SJÁ UPPTÖKU FRÁ FUNDINUM

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

24. febrúar 2022

Sjá hér að ofan // Það berast fleiri draugasögur úr Efstaleiti. Ég hef ítrekað ritað og spurt dagskrárstjóra Gufunnar: Hví heyrast ekki hljóðritanir forvera okkar tónlistarmanna í Útvarpi hins "hugsandi manns". Hvar er dómorganisti dr Páll, píanósnillingur Árni Kristjánsson, konsertmeistari Björn Ólafsson, Einar Vigfússon, Kristján Stephensen, Guðný Guðmundsdóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Þórður Magnússon tónskáld, Haukur Tómasson, Atli Ingólfsson, Þuríður Jónsdóttir, Mist Þorkelsdóttir - ad infinitum?
 
Starfsmaður Rásar 1 sagði símleiðis í óspurðum fréttum: "Guðmundur minn. Hljóðritasafn Útvarpsins hefur verið flutt! Það er ekki við hliðina á okkur dagskrárgerðarfólki líkt og áður! Það er ekki einu sinni í kjallaranum! Það er í kjallaranum undir kjallaranum! Þangað kemst ekki nokkur maður nema hann sé með próf í pípulögnum eða rafmagni. Þessi eini starfsmaður sem enn annast tónlistardagskrárgerð hefur hvorki tíma, lykla né nennu til að nálgast tónlistarsögu Íslands í undirdjúpum Efstaleitis - og ekki einu sinni afspilunartæki til að hlýða á þessi dýrmæti". Hversu djúpt ætlar dagskrárstjóri að sökkva tónlistarsögu Íslands? Kannski þurrka hana út? Þetta er hreint og klárt lögbrot, brot á lögum um Ríkisútvarp þjóðarinnar.