6) TÓNLISTARHNEYKSLIÐ RÚV - RÁS 1 - "MENNINGARMORÐ" Í HÁSKÓLABÍÓI 2013 - SJÁ UPPTÖKU FRÁ FUNDINUM

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

23. febrúar 2022

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir

Deilt á dagskrárstjóra Rásar 1 fyrir dónaskap og fleira í þeim ókurteisa Dúr  
Kær kveðja Sveinbjörg, g

Fyrir skömmu síðan auglýsti Rás 1 eftir viðbrögðum frá hlustendum um hvers konar tónlist þeir vildu heyra. Ég gerðist svo djörf að svara þessu kalli og skrifaði bréf þar sem ég, auk þess að svara spurningunni, leyfði mér að gagnrýna þá stefnubreytingu sem átt hefur sér stað um val á tónlist á Rás 1 að undanförnu.

Það er staðreynd að klassísk, þjóðleg tónlist, nútíma tónlist bæði innlend og erlend hefur átt undir högg að sækja að undanförnum á Rás 1, en hún er eina útvarpsstöðin sem sinnt hefur þessu hlutverki. Ég tók fram að ég hefði ekkert á móti dægurtónlist eða annarri tegund tónlistar en að aðrar rásir gerðu þeirri tegund tónlistar ágæt skil. Ég fór fram á að við sem njótum klassískrar tónlistar mættum halda því áfram. Einnig gagnýndi ég þá tónlist sem spiluð er á milli dagskrárliða en hún er ansi einhæf (oftast jass) og ætti oft á tíðum betur heima á rás 2. Það lítur helst út fyrir að sumir þulir velji tónlist eftir sínum eigin smekk en láti fjölbreytni lönd og leið.

Ég fékk svar um hæl frá dagskrárstjóra sem var ekki mjög ánægður með þessa gagnrýni mína. Hann tíundaði alla þá þætti sem spiluðu tónlist á Rás 1 og sagði mér svo hvað vantaði í tónlistardagskrá Rásar 1.

Eitt var rétt hjá dagskrárstjóra, umfjöllun um klassíska tónlist og samtímatónlist er hvergi meiri í íslenskum fjölmiðlum en á Rás 1. Ekki flókið, þar sem Rás 1 er eina stöðin sem sinnir því hlutverki. Að lokum sagði hann orðrétt, “mér heyrist þú einfaldlega þurfa að hlusta betur á dagskrá Rásar 1”.
Ég var satt að segja mjög undrandi á þessum viðbrögðum, átti raunar ekki von á að fá svar og síst af öllu í þessum tón. Það er greinilegt að gagnýni er ekki vel þegin á þessum bæ. Það e nokkuð augljóst að dagskrárstjóri er með það á hreinu hvað honum finnst vanta í tónlistardagskrá Rásar 1. En því þá að spyrja almenning? Er það bara til málamynda? Verður nokkuð mark tekið á hlustendum?

Í svarbréfi mínu lét ég m.a.í ljós að mér findist að maður í hans stöðu ætti að vita betur en að svara hlustendum á þennan hátt. En hann áttaði sig alls ekki á yfir hverju ég var að kvarta. Hann sagðist hafa upplýst mig um stöðuna á Rás 1 og svo bent mér góðlátlega á að hlusta betur. Mér fannst þetta ekki svaravert.

Dagskrárstjóri virðist ekki átta sig á hvenær hann talar niður til fólks og er hreint og beint dónalegur. Það hlýtur að kalla á manneskju með góða samskiptahæfileika að vera í stöðu sem þessari en þennan mann virðist algjörlega skorta þann hæfileika.

Ég var að sjálfsögðu ekki sátt með svar háttvirts dagskrárstjóra svo ég sendi útvarpsstjóra afrit af samskiptum okkar og bað um hans álit á svari dagskrárstjóra.

Útvarpsstjóri tók minni málaleitan af kurteisi og fagmennsku, baðst afsökunar á þessari framgöngu í minn garð og sagði það ekki sæma fulltrúa RUV að svara með þessum hætti. Að lokum þakkaði hann mér fyrir rökstuddar og uppbyggilegar ábendingar.

MAÐUR SEM KANN SIG.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir