6) TÓNLISTARHNEYKSLIÐ RÚV - RÁS 1 - "MENNINGARMORÐ" Í HÁSKÓLABÍÓI 2013 - SJÁ UPPTÖKU FRÁ FUNDINUM

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

6. febrúar 2022

Þórður Magnússon tónskáld

 

Sæll Guðmundur

Hér eru nokkrir punktar um Rúv eins og þú baðst um.

Nokkrar línur um Ríkisútvarpið.

Fyrir mörgum árum var sagt um ríkisútvarpið að þar hljómaði sinfóníugaul allan liðlangan daginn. Þetta þótti sumum vera hið mesta böl ekki síst í ljósi þess að þetta var eina útvarpsstöðin í landinu. Síðan gerist það að fleiri útvarpsstöðvar bætast í hópinn og lögðu þær allar undantekningalaust megináherslu á að þar myndi ekki nokkurn tímann undir neinum kringumstæðum heyrast sinfóníugaul.
Einhverjum árum seinna kom síðan upp sú hugmynd að það væri sniðugt að poppa upp gömlu gufuna og minnka sinfóníugaulið. Þar sem aðrar utvarpsstöðvar mettuðu markaðinn að svokallaðri vinsælli tónlist var farin sú leið að grafa upp popp-, rokk- og kántrí-tónlist, oftar en ekki ættuð frá Skandinavíu, sem ekki nokkur lifandi manneskja hefur áhuga á og hefur sú tónlist verið þar allsráðandi æ síðan.

Núna held ég að menn ættu að vera farnir að sjá að þetta er ekki rétta leiðin og stuðlar síður en svo að auknum vinsældum gömlu gufunnar. Unnendur klassískrar tónlistar eru hins vegar eins og staðan er í dag stórlega vanræktur hópur og því ákveðið tækifæri fólgið í því að höfða meira til þeirra. Rás 1 má eiga það að þeir eru duglegir að taka upp tónleika og endurflytja en gera mætti enn betur með því að fylla t.d. tómarúm í dagskránni með upptökum úr safni ríkisútvarpsins eða bara einhverjum stórfenglegum upptökum með miklum meisturum frekar en kántrígauli frá Skandinavíu.
Nokkrar línur um Tónskáldasjóð Ríkisútvarpsins

Það er umhugsunarefni á hvaða vegferð Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins er. Það er ekkert launungarmál að ekki eru margar leiðir færar fyrir þá sem fást eingöngu við að skrifa tónlist til að fá salt í grautinn. Listamannalaun fyrir tónskáld t.d. eru meira í ætt við happdrættisvinning sem getur verið ljúft að fá en á sama tíma ekkert til að byggja á og skipuleggja sig í kringum, meira að segja fyrir stærstu og viðurkenndustu tónskáld íslensku þjóðarinnar. Einhverra hluta vegna hefur önnur menning ríkt hjá rithöfundum þar sem það er forsíðufrétt þegar vinsælir höfundar fá ekki laun í samræmi við væntingar.

Eitt sinn var samt Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins vin í eyðimörkinni. Það var eini vettvangurinn sem tónskáld gátu sótt í og fengið vel upp í laun fyrir vinnuna sína. Styrkir voru nógu ríflegir til þess að hægt var að skipuleggja sig og minnka við sig önnur borguð verkefni og einbeitt sér að hinum ólaunuðu tónsmíðum. Á einhverjum tímapunkti urðu miklar manna- og skipulags-breytingar og skyndilega breyttist þessi sjóður. Hann var “opnaður” og styrkir urðu “fjölbreyttari”. En það þýddi líka að mörgum sinnum fleiri fengu laun, sem síðan þýddi að styrkir á hvern aðila fóru allt niður í að vera ígildi c.a. 3-5 daga vinnu. Það segir sig sjálft að engin getur endurskipulagt tímann sinn í kringum svoleiðið styrki. Fólk þarf að halda fast í aðra borgaða vinnu og styrkurinn er meira svona eins og að vinna í happaþrennu eða spilakassa.

Svona styrkir nýtast ekki þeim sem þurfa á því að halda og auðga menningarlífið því ekki sem skildi. Tónskáldasjóður var stofnaður fyrir tónskáld í gömlu merkingunni. Þ.e. fólk sem situr heima við(eða í vinnustofu) og skrifar tónlist. Þetta fólk býr við þann veruleika að það hefur takmarkaðar leiðir til að afla sér tekna. Þeir sem spila sína eigin tónlist (og þá oftast líka tónlist annarra) eða standa fyrir gjörningum þar sem þeir sjálfir í eigin persónu standa upp á sviði, sitja við annað borð. Auðvitað eiga þeir líka við sín tekjuvandamál að stríða sér í lagi á tímum covid, en skrifandi tónskáld verða að fá að hafa sína sjóði í friði. Þarna verður að gera greinarmun. Þessir hópar hafa alveg sitthvorra hagsmunina að gæta. Þeir sem eru með fastar tekjur fyrir tónlistarflutning t.d. taka öllum styrkjum fagnandi og því oft bara gott mál að styrkirnir fari til sem flestra þótt þeir verði lægri fyrir vikið. Skrifandi tónskáld sem reiða sig á þessa styrki sem sín einu laun hafa hins vegar aðra hagsmuni. Þ.e að styrkirnir dugi fyrir launum og verða því þar af leiðandi að vera hærri og færri einstaklingar fái styrk fyrir vikið. Það má auðvitað hafa styrktarsjóð fyrir performerandi listamenn en þessir tveir aðskildu heimar rúmast illa inna sömu úthlutunarnefndar.

Vona að þetta nýtist þér eitthvað.
Kveðja
Þórður